Að fagna fjölbreytileika tungumála

STAÐA MANNESKJUNNAR

Á plánetunni okkar eru meira en 7 milljarðar manneskja sem tala milli 6.000 og 7.000 mismunandi tungumál. Nokkur tungumál búa yfir hundruðum milljóna málhafa, t.a.m. enska eða kínverska, en flest búa einungis yfir nokkrum þúsundum málhafa, eða jafnvel bara slæðingi af þeim. Í raun eru 96% tungumála töluð af aðeins 4% heimsbúa. Evrópubúum finnst oft eins og heimsálfa þeirra búi yfir einstaklega mörgum tungumálum, einkum í samanburði við Norður-Ameríku eða Ástralíu. Þó eiga eingöngu 3% allra mála heimsins, um 225 tungumál, heimkynni sín að rekja til Evrópu. Flest tungumála heimsins eru töluð á víðfeðmu svæði báðu megin við miðbaug jarðar – í suðaustur Asíu, á Indlandi, í Afríku og Suður-Ameríku.

Margir Evrópubúar halda að það sé alvanalegt að lifa við eintyngi. En milli helmings og tveggja þriðjunga heimsbúa er tvítyngdur að einhverju leyti og þónokkur hluti þeirra er fjöltyngdur. Fjöltyngi er manneskjunni eðlislægra en eintyngi. Fjölbreytni milli tungumála og menningarheima er í vaxandi mæli álitin góð og falleg í sjálfu sér, rétt eins og líffræðilegur fjölbreytileiki. Hverju tungumáli fylgir einstök heimssýn og það er afurð sinnar eigin sérstöku sögu. Öll tungumál hafa sín einkenni og sitt virði og öll eru þau jafn vel til fundin sem tjáningaraðferð þeirra sem nota þau. Við vitum út frá samanburðum á hraðanum sem börn læra að tala að ekkert tungumál er í eðli sínu erfiðara en eitthvert annað mál.

Uppbygging tungumála

Tungumál er handahófskennt kerfi hljóða og tákna sem er notað í ýmsum tilgangi af hópi fólks, einkum til þess að eiga samskipti sín á milli, að tjá menningu sína, að gefa félagsleg tengsl til kynna og að veita ánægju (t.a.m. bókmenntir). Tungumál skera sig hvert frá öðru hvað varðar hljóð, málfræði, orðaforða og uppbyggingu samræðna. En öll tungumál eru mjög flókin fyrirbæri. Fjöldi sér- og samhljóða er mismunandi milli mála, frá undir 12 til yfir 100. Evrópsk tungumál lenda yfirleitt einhvers staðar þar á milli, frá um 25 hljóðönum (t.d. spænska) til yfir 60 hljóðana (t.d. írska). Stafróf endurspegla þessi hljóð af mismikilli nákvæmni, sum stafróf (t.d. hið velska) tákna tilheyrandi hljóð á mjög reglulegan máta, á meðan önnur (t.d. hið enska) eru óreglulegri. Hvað málfræði varðar býr hvert mál yfir mörgþúsund möguleikum til orð- og setningamyndunar.        

Hvert tungumál er með stórt orðasafn sem getur mætt þörfum notenda sinna. Í tilfelli evrópskra tungumála, þar sem vísinda- og tæknilegur orðaforði er mikill, er um mörghundruð þúsundir orða og orðastæðna að ræða. Einstakir málhafar þekkja og nota bara brotabrot af öllu orðasafni tungumáls. Virkur orðaforði menntafólks getur talið allt að 50 þúsund orð, en óvirkur orðaforði þess, þ.e. orð sem það þekkir en notar ekki, er töluvert stærri. Í daglegu lífi notar fólk yfirleitt bara lítinn fjölda orða, en í ríkum mæli. Reiknað hefur verið út að 21. árs einstaklingur hafi á lífsleið sinni mælt um 50 milljón orð. Tungumál nútímans og menningarheimar eru sífellt að taka stakkaskiptum. Fólk hefur gagnverkandi áhrif á rit- og málvenjur hvers annars. Nýir miðlar, eins og netið, veitir tungumálum tækifæri til þess að dafna. Tungumál eru alltaf í snertingu hvert við annað og hafa áhrif hvert á annað á marga vegu, sérstaklega með tökuorðum. Enska, sem dæmi, hefur í gegnum árhundruð tekið orð úr yfir 350 tungumálum og öll evrópsk tungumál eiga mörg tökuorð úr ensku.

Máltaka og máltileinkun

Við lærum móðurmál okkar í meginatriðum á fyrstu fimm árum lífsins, en sumum þáttum máltökunnar (s.s. uppbyggingu orðaforða) linnir þó aldrei. Máltaka á sér stað í nokkrum þrepum. Á fyrsta árinu byrja börn að hjala þar sem þau mynda ýmsa hljóðastrengi. Hjalinu fylgir að tón- og hljóðfall sem og sér- og samhljóð taka á sig mynd. Í kringum eins árs aldur mynda börn fyrstu skiljanlegu orðin. Á öðru ári mynda þau tveggja orða setningar, sem hægt og rólega færast yfir í þriggja og fjögurra orða setningar.  Börn á þriggja og fjögurra ára aldri mynda sífellt lengri og flóknari setningar. Orðaforði vex frá u.þ.b. 50 virkum orðum við 18 mánaða aldur í nokkur þúsund orð við fimm ára aldur. Móðurmáli er yfirleitt lýst sem fyrsta lærða máli einstaklings. Þetta er tungumálið sem fólk þekkir best, tungumálið sem það notar mest eða tungumálið sem það tengir mest við. Hjá sumu tvítyngdu fólki hafa tvö tungumál verið lærð í svo miklu samneyti hvort við annað að það er ógjörlegt að segja til um hvað sé „fyrsta“ og hvað „annað“ mál. Hjá flestu tvítyngdu fólki er munurinn skýrari, þegar tileinkun annars eða þriðja máls á sér stað á meðan skólagöngu stendur eða seinna á lífsleiðinni.

Ekkert aldurstakmark er á því að læra annað tungumál. Tvítyngi er flókið fyrirbæri. Algeng mýta er að tvítyngd manneskja sé nákvæmlega jafn fær í báðum málum. Staðreyndin er sú að jafnvægi milli mála hjá tvítyngdu fólki er afar sjaldgæft. Önnur mýta er að allt tvítyngt fólk sýni fram á sömu færni í tungumálunum sem það talar. Staðreyndin er sú að margar tegundir af tvítyngi er til. Sumt fólk hljómar eins og móðurmálshafi í báðum málum á meðan annað fólk er með sterkan erlendan hreim í einu þeirra. Sumt fólk er fluglæst á báðum málum á meðan annað fólk er eingöngu læst á einu máli. Sumt fólk er skrifandi á einu máli, en kýs heldur að tala á hinu. Tvítyngi fylgja margir kostir. Tvítyngi getur aukið líkurnar á því að þú náir góðu valdi á öðrum tungumálum. Það að læra annað mál gerir tileinkun þriðja máls auðveldari. Einnig getur tvítyngi verið kostur fyrir heilastarfsemi. Rannsóknir benda til þess að vissum sviðum vitsmunaþroska hjá tvítyngdu fólki fari hraðar fram en hjá eintyngdu fólki og að tungumálahæfileikar þess séu frjórri. Tvítyngi fylgir jafnframt sá kostur að geta átt samskipti við fjölbreyttari hóp af fólki. Þar sem tvítyngdu fólki býðst sá möguleiki að vera í nánu samneyti við tvo eða fleiri mismunandi menningarheima, getur tvítyngi þess leitt til þess að það verður næmara í samskiptum sínum og reiðubúið til þess að yfirstíga menningarþröskuldi og brúa bilið á milli menningarheima. Þess fyrir utan fylgja tvítyngi hagnýtir kostir – tvítyngt fólk hefur visst efnahagslegt forskot þar sem fleiri störf standa því til boða. Einnig hefur í auknum mæli verið viðurkennt að fjöltyngd fyrirtæki hafi forskot á eintyngd fyrirtæki.

Tungumálaættir

Tungumál eru skyld hvort öðru, líkt og meðlimir í sömu fjölskyldu. Flest tungumála Evrópu flokkast saman, vegna sameiginlegs uppruna, og heyra undir indó-evrópsku tungumálaættina. Tungumálaættirnar í Evrópu sem flest tungumál tilheyra og búa yfir flestum málhöfum eru germanska, rómanska og slavneska tungumálaættin.

Germanska tungumálaættin skiptist í norðurgermönsk mál, þ.e. dönsku, norsku, sænsku, íslensku og færeysku, og versturgermönsk mál, s.s. þýsku, hollensku, frísnesku, ensku og jiddísku.

Undir rómönsku tungumálaættina heyra m.a. rúmenska, ítalska, korsíkanska, spænska, portúgalska, katalónska, okkitíska, franska, rómanska, ladínska og sardínska.

Undir slavnesku tungumálaættina heyra m.a. rússneska, úkraínska, hvítrússneska, pólska, sorbneska, tékkneska, slóvakíska, slóvenska, serbneska, króatíska, makedónska og búlgarska.

Undir keltnesku tungumálaættina heyra m.a. írska, skosk gelíska, velska og bretónska auk þess sem fólk hefur sýnt viðleitni til þess að endurvekja kornísku og manx. Undir baltnesku tungumálaættina heyra litháíska og lettneska.      

Aðrar indó-evrópskar tungumálaættir sem aðeins eitt tungumál heyrir undir eru gríska, albanska og armenska.            

Baskneska er alveg sér á báti þar sem hún tilheyrir ekki indó-evrópsku tungumálaættinni og uppruni hennar er á huldu.

Aðrar tungumálaættir eru einnig að finna í Evrópu. Í Norður-Evrópu fyrirfinnast finnsk-úgrísku tungumálin: finnska, eistneska, ungverska, nokkur samísk mál auk annarra smárra tungumála í norðurhluta Rússneska sambandsríkisins eins og ingrísku eða karelsku. Í Suðaustur-Evrópu fyrirfinnast altaísk tungumál, þ. á m. tyrkneska og aserska. Tungumál kákasísku tungumálaættarinnar eru töluð á tiltölulega litlu og þéttu svæði milli Svartahafs og Kaspíahafs og eru um 40 talsins, þ. á m. georgíska og abkhasíska. Innan afró-asísku tungumálafjölskyldunnar eru maltneska, hebreska og berbíska. Öll þessi tungumál notast við lítinn fjölda stafrófa. Flest nota latneska (eða rómverska) stafrófið. Rússneska og önnur slavnesk tungumál nota kýrillíska stafrófið. Gríska, jiddíska, armenska og georgíska notast við eigið stafróf. Önnur tungumál sem eru ekki evrópsk en eru töluð víða um Evrópu eru arabíska, kínverska og hindí, sem öll eru með eigið stafróf.

Tungumál Evrópu

Samkvæmt ágiskunum eiga um 225 tungumál heimkynni sín að rekja til Evrópu. Þau fimm tungumál sem eiga flesta móðurmálshafa innan Evrópu eru rússneska, þýska, enska, franska og ítalska. Í flestum evrópskum löndum litast samfélagið þó af mörgum tungumálum. Undantekningar eru smáríki eins og Liechtenstein og Vatíkanið, en jafnvel á þessum stöðum má heyra önnur tungumál. Þau 49 ríki sem eiga aðild að menningarsáttmála Evrópu búa samtals yfir 41 opinberu eða ríkismáli og mörg þeirra eru með önnur viðurkennd mál. Flest lönd búa yfir mörgum minnihlutamálum eða svæðisbundnum málum. Í Rússneska sambandsríknu eru töluð langflest tungumál, frá 130 til 200, eftir því við hvað er miðað.

Sum svæðisbundin og minnihlutamál hafa öðlast opinbera stöðu, t.a.m. baskneska, katalónska og galisíska á þeim svæðum Spánar þar sem þau eru töluð. Velska hefur stöðu verndaðs tungumáls í Bretlandi, líkt og frísneska í Hollandi og samísk tungumál í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Vegna innflytjenda- og flóttamannastraums frá öllum heimshornum verður Evrópa sífellt fjöltyngdari. Til að mynda eru töluð yfir 300 tungumál á heimilum Lundúna. Í flestum öðrum stærri borgum, sérstaklega í Vestur-Evrópu, eru 100 til 200 tungumál töluð sem móðurmál af fólki innan skólakerfisins. Þau algengustu eru arabíska, berbíska, tyrkneska, kúrdíska, hindí, punjabí og kínverska. Þó eru mörg þessara tungumála töluð af litlum minnihlutahópum og framtíð þeirra er í húfi. Dagleg óformleg munnleg samskipti milli foreldra og barna skiptir sköpum til þess að tungumálið lifi áfram. Sérfræðingar telja að a.m.k. helmingur allra tungumála, kannski fleiri, muni deyja út á þessari öld. Öll ummerki tungumáls geta afmást innan tveggja kynslóða, um leið og börn eru ekki lengur alin upp í því málumhverfi. Ástæður þess að tungumál þurrkist út eru ýmsar, m.a. tortíming samfélags eða búsvæðis þess (vegna náttúruhamfara og sjúkdóma), fjandskapur í garð samfélags af hálfu stjórnmálahópa og, algegasta orsökin, hagfræðilegir og menningarlegir yfirburðir valdameiri og virtari tungumála. En hver sem ástæðan sé, niðurstaðan helst sú sama: mannkynið glatar einstakri auðlind.

Í gegnum vinnu Evrópuráðsins gengu árið 1998 tveir mismunandi samningar í garð. Sáttmáli Evrópuráðsins um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa er í gildi í 25* aðildarríkjum þess og rammasamningur Evrópuráðsins um verndun þjóðarbrota, sem inniheldur ákvæði um tungumál minnihlutahópa, er í gildi í 39* aðildarríkjum. (* fullgilding frá og með árinu 2010). Þessir sáttmálar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að vernda og efla tungumálaauð Evrópu. Við upphaf 21. aldarinnar búa allir Evrópubúar í fjöltyngdu umhverfi. Í sínu daglega lífi komast borgarar í snertingu við mörg mismunandi tungumál, t.d. í strætisvagni eða lest, í gegnum sjónvarp, útvarp eða fréttablöð, eða með því að lesa innihaldslýsingar á vörum úti í búð. Það þarf að auka almenna þekkingu og skilning á fjölbreytileika tungumála Evrópu og á þáttunum sem verka á vöxt þeirra og viðhald. Það þarf að vekja meiri áhuga á og forvitni um tungumál. Það þarf að ýta undir umburðarlyndi gagnvart öðrum tungumálum innan og milli þjóða. Þessi markmið eru bara nokkur þeirra sem evrópska tungumálaárið 2001, sem var skipulagt af Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, stefndi að. Á kvöldi lokaviðburðar tungumálaársins ákvað ráðherranefnd Evrópuráðsins að lýsa því yfir að evrópski tungumáladagurinn skyldi haldinn þann 26. september ár hvert, með svipuð markmið að leiðarljósi.