xxx

Hvað er evrópski tungumáladagurinn?

Evrópska tungumálaárið 2001, sem var skipulagt af Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, hafði erindi sem erfiði og vakti áhuga fólks í milljónavís í 45 þátttökulöndum. Viðburðirnir sem voru skipulagðir í tilefni þess höfðu það að markmiði að hylla fjölbreytileika tungumála Evrópu og hvetja fólk til þess að læra ný tungumál.

Í kjölfar góðs árangurs evrópska tungumálaársins, kvað Evrópuráðið á um að þann 26. september ár hvert skyldi haldinn evrópski tungumáladagurinn. Helstu markmið evrópska tungumáladagsins eru:

  1. Að upplýsa almenning um mikilvægi þess að læra tungumál og að stuðla að fjölbreytileika þeirra tungumála sem fólk lærir, þar sem aukið fjöltyngi og aukinn þvermenningarlegur skilningur eru höfð að leiðarljósi.
  2. Að efla fjölbreytileika tungumála og menningarlegan fjölbreytileika í Evrópu, sem þurfi að hlúa að og varðveita.
  3. Að hvetja til símenntunar í tungumálum, bæði innan sem utan menntakerfisins, hvort sem það sé í náms- eða atvinnuskyni, til þess að geta átt auðveldara með að færa sig á milli staða, sér til yndisauka eða fyrir tungumálaskipti.

Þann 26. september 2011 hélt Evrópuráðið og 46 aðildarríki þess uppá 10 ára afmæli evrópska tungumáladagsins.

FYRIR HVERN ER EVRÓPSKI TUNGUMÁLADAGURINN?

Evrópuráðið vonast til þess að þessum degi verði fagnað bæði af stjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópuráðsins og af mögulegum samstarfsaðilum á eftirfarandi sviðum:

  • Á pólitískum vettvangi (t.a.m. sértækar aðgerðir eða umræður um málpólitík)
  • Á opinberum vettvangi (vekja athygli á almennum markmiðum tungumáladagsins, þ.m.t. mikilvægi símenntunar í tungumálum, að byrja að læra tungumál óháð aldri, innan menntastofnana eða innan vinnustaðar o.s.frv.)
  • Innan sjálfboðaliðageirans (sérstakar aðgerðir skipulagðar af eða fyrir frjáls félagasamtök, óopinberar stofnanir, fyrirtæki o.fl.)