Hvers vegna er evrópska tungumáladeginum fagnað?

Aldrei fyrr hafa jafn mörg tækifæri gefist til þess að vinna eða læra í öðru evrópsku landi, en ónæg tungumálakunnátta kemur oft í veg fyrir að fólk nýti sér þau.

Alþjóðavæðing og uppbygging atvinnulífsins hafa það í för með sér að þjóðfélagsþegnar þurfa í sífellt auknum mæli að vera færir í erlendum tungumálum til þess að geta starfað á skilvirka vegu í eigin landi. Enska nægir ekki lengur út af fyrir sig.

Í Evrópu þrífast ótalmörg tungumál – til eru yfir 200 evrópsk tungumál og fjöldinn allur af öðrum tungumálum er talaður af fólki sem á rætur að rekja til annarra heimsálfa. Þetta er mikilvæg auðlind sem þarf að viðurkenna, nýta og standa vörð um.   

Að læra nýtt tungumál gagnast bæði ungum sem öldnum – það hefur engin aldurstakmörk og fólk á hvaða aldri sem er getur nýtt sér þau tækifæri sem skapast við það að læra nýtt mál. Jafnvel þótt þú kunnir einungis nokkur orð í því tungumáli sem er talað í landi sem þú ferðast til (t.d. í sumarfríinu), getur það leyft þér að eignast nýja vini og mynda tengslanet.

Að læra tungumál annarra þjóða er leið til þess að skilja hvert annað betur og að yfirstíga menningarlegan mismun.

MARKMIÐ

Tungumálakunnátta er nauðsynleg og við eigum ÖLL rétt á henni – þetta er eitt af meginskilaboðum evrópska tungumáladagsins.

Almenn markmið evrópska tungumáladagsins eru að skapa vitund um:

  • Fjölbreytileika tungumála í Evrópu, sem þurfi að varðveita og efla.
  • Mikilvægi þess að stuðla að fjölbreytileika þeirra tungumála sem fólk lærir (þ.m.t. minna útbreidd tungumál), sem leiðir til fjöltyngis.
  • Mikilvægi þess að fólk sé að einhverju leyti fært að tjá sig á tveimur eða fleiri tungumálum til þess að geta tekið fullan þátt í lýðræðislegu evrópsku samfélagi.

[...] Ráðherranefndin ákvað að lýsa yfir evrópskum tungumáladegi, sem haldinn yrði 26. september ár hvert. Nefndin mælti með því að tungumáladagurinn skyldi skipulagður á sveigjanlegan máta, þar sem dregið yrði úr miðstýringu, í samræmi við óskir og aðföng aðildarríkjanna, sem myndi gera þeim kleift að skilgreina eigin framgangsmáta betur, og að Evrópuráðið skyldi bera fram tillögu um sameiginlegt inntak ár hvert. Ráðherranefndin býður Evrópusambandinu að taka þátt í þessu framtaki Evrópuráðsins. Vonin er sú að tungumáladeginum verði fagnað í samvinnu við alla hlutaðeigandi aðila.

Ákvörðun ráðherranefndar Evrópuráðsins, Strassborg (Fundur nr. 776, 6. desember 2001)