Hver getur tekið þátt?

ÖLL geta á einhvern hátt tekið þátt í evrópska tungumáladeginum!

Fólk á öllum aldri getur tekið þátt í tungumáladeginum, hvort sem um einstakling eða hóp sé að ræða, hvort sem á vegum skóla eða félagasamtaka eða bara með vinum. Hægt er að leggja evrópska tungumáladeginum lið og stuðla að góðum afrakstri hans með því að taka þátt í uppákomum honum tengdum eða með því að setja sjálf viðburði á laggirnar (vinsamlegast ekki gleyma að skrá viðburðinn í dagatal tungumáladagsins). Hér fyrir neðan eru nokkrir valkostir nefndir:

NEMENDUR: Til þess að læra meira um fjölbreytileika tungumála geta nemendur tekið þátt í skemmtilegum netleikjum á síðunni okkar. Leikirnir okkar gefa þér innsýn í mörg og mismunandi tungumál Evrópu. Ef þú ert tónlistarunnandi geturðu t.a.m. skipulagt tónlistarviðburð til þess að vekja athygli á mismunandi tungumálum og tónlistarstefnum í Evrópu. Þú gætir jafnvel deilt flutningnum með öðrum í gegnum vefsíðuna okkar.

KENNARAR: Tungumáladagurinn býður upp á marga möguleika fyrir tungumálakennara – eða kennara í öðrum greinum. Hann veitir tækifæri til þess að læra um aðra menningarheima, hefðir og tungumál sem eru að jafnaði ekki rædd í kennslustofunni; tækifæri til þess að ýta undir sköpunargáfu nemenda með því að láta þá sýna tungumálin sem þeir tala á myndrænan máta; tækifæri til þess að setja á laggirnar tungumálakaffihús og varpa ljósi á öll tungumálin sem eru töluð innan skólans.

MENNTASTOFNANIR: Evrópski tungumáladagurinn veitir tækifæri til þess að sjá skólann/stofnunina og nærliggjandi umhverfi í nýju ljósi – sem stað þar sem fólk með mismunandi bakgrunn hittist, býr og á samskipti, þar sem tungumál dafna. Hvað er því til fyrirstöðu að koma á fót umræðuhópum sem samanstanda af fólki sem talar mismunandi móðurmál? Samskiptamiðlar eru góð leið til þess að koma slíku í gang og þú gætir jafnvel nýtt þér fésbókarhóp evrópska tungumáladagsins. Skólar sem eru staðsettir nálægt landamærum gætu skipulagt ferð til þess að hitta nemendur frá nágrannalandi. Einnig gætu skólar sett af stað keppnir fyrir nemendur sem snúast um að læra nýtt tungumál eða að skerpa tungumálahæfileika sína.

Í raun er ÖLLUM fært um að taka þátt í evrópska tungumáladeginum, þó það sé ekki nema með því að bjóða nágrönnum sem eiga annað móðurmál í kaffi eða að setja upp plaköt evrópska tungumáladagsins heima hjá sér. Þú munt kannski ekki tala fjöldann allan af tungumálum reiprennandi eftir einn dag, en þú munt verða víðsýnni fyrir vikið og munt áræðanlega njóta dagsins!