EDL.ECML.AT/LANGUAGEDETECTIVE

Ert þú tungumálaspæjari?

Getur þú borið kennsl á öll tungumálin í leiknum?

Ert þú tungumálaspæjari?

Getur þú borið kennsl á öll tungumálin í leiknum?

Sjá síðu


Að ráða í Rósettusteininn - svipt hulunni af aldagamalli ráðgátu

Hefur þú heyrt söguna af því hvernig fræðimenn réðu í letrið á Rósettusteininum? Steinninn er fornt menningarverðmæti sem hefur að geyma lykilinn að fornegypskum helgirúnum og var uppgötvaður árið 1799. Spennið beltin og komið með í ferðalag um þessa heillandi tungumálaþraut. 

Rósettusteinninn – meistaraverk á mörgum málum

Ímyndaðu þér hvernig það væri að berja risastóran rúnaristan stein augum: hann væri á stærð við ungling og rúnirnar sem þú sæir væru þér algjörlega framandi. Svona mætti lýsa Rósettusteininum. Hvað er eiginlega svona merkilegt við hann? Á hann var ritaður sami textinn á þremur mismunandi ritmálum: fornegypskum helgirúnum, alþýðuletri (e. demotic) og forngrísku. Næstum því eins og dulmál!

Tungumálaspæjararnir

Eins og tungumálaspæjarar þurftu fræðimenn að ráða í Rósettusteininn. Þeir gátu byggt á kunnáttu sinni í forngrísku, sem þeir þekktu nú þegar. Aðaláskorunin lá í hinum tveimur tungumálunum – helgirúnunum og alþýðuletrinu. 

Ráðið í helgirúnirnar

Fræðimennirnir áttu við ramman reip að draga þegar þeir réðust í þýðingu Rósettusteinsins. Eftir áralangar rannsóknir, samanburði og textagreiningu komust þeir loksins eitthvað áleiðis. Hér er vert að staldra við og nefna franska textafræðinginn Jean-François Champollion sem spilaði lykilhlutverk í þessu stóra verkefni. Hann rannsakaði ýmsa fornegypska texta og með tíð og tíma náði hann að ráða í helgirúnirnar á steininum. Meðal þess sem hann gerði var að bera saman grísk nöfn sem komu fram í textanum við samsvarandi helgirúnir. Með þessu var algjörlega nýr heimur opnaður fyrir okkur.

Alþýðuletrið leyst

Fræðimönnunum reyndist einnig erfitt að ráða í egypska alþýðuletrið. Þeir báru það saman við aðra texta sem höfðu fundist í Egyptalandi og voru á alþýðuletri. Eftir þrotlausa vinnu náðu þeir að lokum að ráða í letrið og færðu okkur um leið nær leyndardómum fortíðarinnar.

Fornmenningin lifir í minni

Þökk sé hetjulegum dáðum þessara fræðimanna varð Rósetusteinninn lykillinn sem opnaði dyrnar að egypskri fornmenningu. Hann gerir okkur kleift að lesa og skilja fornegyptskar sögur og læra um hefðir þeirra. Í dag stendur steinninn fyrir málvísindalegan sigur og hvetur komandi kynslóðir fræðimanna til nýrra uppgötvanna innan egypskra fræða. 

Rósettusteinninn er ekki bara flottar fornminjar heldur málvísindaleg ráðgáta sem duldist fyrir fremstu hugsuðum sinnar kynslóðar í mörg ár. Hann minnir okkur á mátt tungumálsins og mikilvægi þess að varðveita menningu okkar og arfleifð. Ef þú stefnir á að verða tungumálaspæjari skaltu minnast Rósettusteinsins og leyfa honum að kveikja á forvitni þinni um faldar sögur og forna texta.

Gangi þér vel!