Stigið inn í öld fjöltyngis   


„Að tileinka sér mörg mismunandi tungumál er auðveldara en þú heldur“, skrifar Neil Madden.

Ef einhver myndi segja við þig „flisni me mua“, myndirðu vita hvað það þýddi, eða jafnvel hvaða mál væri talað? Með yfir 225 tungumál er tungumálaarfleifð Evrópu auðug og fjölbreytt – staðreynd sem ber að fagna. En hversu góðir eru Evrópubúar í því að læra tungumál nálægra (og fjarlægra) nágranna sinna? Margir Evrópubúar halda að það sé alvanalegt að lifa við eintyngi. En milli helmings og tveggja þriðjunga heimsbúa er tvítyngdur að einhverju leyti og þónokkur hluti þeirra er fjöltyngdur, þ.e.a.s. býr yfir kunnáttu í mismunandi tungumálum (getur skilið og/eða skrifað og/eða talað málið).     

Fjöltyngi er manneskjunni eðlislægra en eintyngi. Milljónir manna telja sig ekki kunna neitt tungumál annað en móðurmálið sitt, en stór hluti þeirra býr þó yfir einhverri færni í öðru tungumáli. Þar fyrir utan eru möguleikarnir til þess að læra nýtt tungumál fleiri en nokkurn tímann áður.

Til þess að leggja áherslu á gildi þess að læra tungumál setti Evrópuráðið evrópska tungumáladaginn á laggirnar, sem er haldinn þann 26. september ár hvert. Hugmyndin á bak við þennan dag er að efla fjöltyngi. Þetta er hvorki nýtt né torskilið. Fjöltyngi er hluti daglegs lífs meðal margra þjóða í Afríku og Asíu og er venjan í sumum Evrópulöndum, sér í lagi í Benelúxlöndunum og Skandinavíu, en einnig í kringum Miðjarðarhafssvæðið. Þetta þýðir ekki að hræða eigi fólk í að halda að það þurfi að stefna á móðumálshæfni. Markmiðið er að geta tjáð sig þannig að annað fólk skilji, í samræmi við eigin þarfir og kröfur. Dreifing ensku um heimsbyggðina virðist óstöðvandi og kannanir gefa í skyn að tileinkun einhverrar færni í ensku sé forgangsatriði fyrir flest fólk sem er að læra tungumál (ein af hverjum þrem manneskjum telur sig færa um að halda uppi samræðum á ensku, skv. Eurobarometer-könnunum).

Þegar þessu markmiði hefur þó verið náð, er engin ástæða til þess að hætta eftir að hafa lært ensku. Mörg önnur tungumál eru einnig mikilsverð verkfæri sem hægt er að nýta til þess að fá sem mest úr því sem lífið hefur upp á að bjóða, hvort sem fyrir vinnu eða á ferðalögum. Eitt af því kaldhæðna við alþjóðavæðingu er að hún gæti leitt til þess að vægi enskunnar dvíni. Á meðan fjöldi þeirra sem tala samskiptamál nútímans fer sífellt hækkandi mun kunnátta í öðrum tungumálum vega þyngra. Á vinnumarkaði og innan menntakerfisins munu enskir móðurmálshafar þurfa að keppast við fólk sem talar auk ensku móðurmál sitt og, í auknum mæli, þriðja eða fjórða tungumál. Kunnátta í tungumáli færir með sér meira en bara hagrænan ávinning. Hún hvetur okkur til þess að vera opnari gagnvart öðru fólki, menningarheimum þess og lífsháttum auk þess sem hún eflir hugræna lipurð með því að gefa okkur færi á að beita mismunandi hugferlum og að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Við ættum ekki að vanmeta það hvernig það að læra nýtt tungumál gefur okkur innsýn í menningu, fólk og hefðir í öðrum löndum. Fólk sem getur léttilega átt samskipti við manneskjur úr öðrum menningarheimum er líklegra til þess að vera umburðarlynt. Og ekki má gleyma að eintyngi þýðir að reiða sig á tungumálakunnáttu og góðvilja annarra. Að læra að nota annað tungumál snýst um meira en bara að öðlast gagnlega færni, heldur endurspeglar það virðingu gagnvart þjóðarvitund og menningu annarra sem og umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika.

Evrópuráðið vann brautryðjandastarf með því að keyra í gang verkefni sem gerði fólki kleift að meta færnistig sitt í erlendu tungumáli. Verkefni evrópsku tungumálamöppunnar miðar að því að hvetja þau sem eru að læra nýtt tungumál með því að meta viðleitni þeirra til þess að víkka út og styrkja tungumálafærni sína á öllum stigum og að votta færnistig þeirra sem hægt er að ráðfæra sig við, t.a.m. þegar þau hækka sig um stig eða eru í atvinnuleit, heima eða erlendis. Með töflukerfi að sjónarmiði geta þau sem eru að læra nýtt tungumál metið færni sína – skilning, lestur, tal og ritun – og raðað henni skv. sex evrópskum stigum. Þessi staðall hefur verið tekinn upp af helstu vottunaraðilum Evrópu, af mörgum aðildarríkjum og af ESB, einkum sem hluti af Europass-verkefninu, kerfi sem er ætlað að gera persónulega styrkleika sýnilegri og auðveldari að bera saman milli aðildarríkja. Eitt megininntak evrópska tungumáladagsins er að efla hugmyndina um að það að læra tungumál sé ævilangt ferli. Mikið af fullorðnu fólki telur sig hafa misst af (eða jafnvel sólundað) tækifærinu til þess að tileinka sér nýtt tungumál á meðan á formlegri menntun þess stóð, það sé of seint að byrja ferlið uppá nýtt. Svo er ekki. Um alla Evrópu bjóðast námsáfangar, námskeið og hjálpargögn (frá bókum til geisladiska) í þeim tilgangi að bæta tungumálafærni fólks. Oft er það sem uppá vantar persónuleg hvöt til þess að yfirstíga „tungumálahræðsluna“. Margir þróa tungumálahæfileika sína eftir að hafa klárað menntun sína. Þetta kemur ekki að miklum óvörum, að læra tungumál í skóla er oft álitið skylda frekar en tækifæri. Einungis þegar við byrjum að kanna heiminn fyrir utan okkur, hvort sem vegna vinnu eða skemmtunar, getum við áttað okkur á virði annarra tungumála. Nokkur hvatingarorð: að læra nýtt tungumál verður auðveldara með hverju lærðu tungumáli. Þannig þegar þú hefur yfirstigið fyrstu hindrunina og þig langar að spreyta þig á ungversku eða kantónsku, láttu vaða!

Ef þig langar að þróa tungumálafærni þína og vita meira um evrópska tungumáladaginn bjóða eftirfarandi síður uppá gagnlegar upplýsingar:

Vel á minnst, svarið við opnunarspurningunni er „talaðu við mig“, á albönsku.

Neil Madden er sjálfstætt starfandi blaðamaður sem býr í Strassborg